Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.11.2008 | 01:12
Spáin er dimm
Stjörnuspekin hefur greinilega sýnt hvað gerist þessa dagana. En brennipunktur nálgast, líkt og í okt.- nóv. árið 1918, þar sem Katla gaus (12/10), drepsótt herjaði á Reykjavík (mið- okt.) í áframhaldandi kuldum (og fínu öskufalli?), Versalasamningarnir voru gerðir (11/11) og nýtt land varð til, íslensk fullvalda þjóð, þann 1. desember 1918. Nú höfum við gert okkar eigin útgáfu af afarsamningum en gætum átt afbrigði af hinu eftir.
Framvindu- stjörnukort lýðveldisins Íslands (1944) sýnir okkur í miðri Plútó- hreinsun, þar sem allt falið kemur í ljós og allt úr sér gengið líður undir lok. Sama á við um stjörnukort Sjálfstæðisflokksins, Plútó tekur hann í gegn núna, þannig að afgerandi svara er krafist og líkur á klofningi eða skýrum línum verulegar.
Ríkisstjórnin verður alltaf að berjast við sitt tvískipta eðli, sbr. stjörnukortið hennar. Hún endar með að verða að taka afstöðu á svona ögurstundu.
Eldurinn í kortinu 28/11 er mikill og Bogmannskraftur eins og ör til breytinga. Ídealismi blómstrar og bylting er í loftinu. Það sem hefur kraumað undir niðri flæðir upp á yfirborðið. Eldgos og jarðskjálftar eru líkleg á þannig stundum. Ef Kötlugos á sér loks stað, þá virðist það jarðbundnara en fyrri gos, meira hraun og minna jökulhlaup, þar sem áður var mikil aska (Vog) og vatnsflóð (Krabbi) en nú er meiri jarðtenging, með Steingeit og Meyju. Þegar álíka afstöður og þessar hafa átt sér stað áður án gosa, þá hafa lægðir orðið krappar, vindar miklir og þjóðlíf róstursamt.
Vinsamlegast skoðið textana, þeir eru í undir Myndaalbúm.
Athygli vekur að í síðasta Kötlugosi var Mars 8° í Bogmanni, eins og nú, en Sól, Merkúr og Tungl bætast í hópinn morguninn 28. nóvember nk. Þá voru Júpíter/Plútó saman í vatnsmerkinu Krabba í spennu við Sól/Merkúr/Venus í Vog og tungl í Steingeit. Lýsingin á 8° í Bogmanni er öll um að losa um það sem býr innra. Það kemur upp á yfirborðið.
Unnið á kreppunni á 18 mánuðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2008 | 17:38
Stjörnuspeki Hönnu Birnu og stjórnar
Lítum á stjörnukortin sem tengast nýju borgarstjórninni. Þau eru hér í myndasafni til hliðar. Hanna Birna er Vog, einnig með Venus í Vog og leitar því að jafnvægi og sáttum. Hún er með sterkar samstöður í Meyju. Fæðingartími er ekki þekktur enn, en Mars er nokkurn veginn kominn í meyjarmerkið úr Ljóni þann dag. Júpíter er stoltur og athafnasamur í Ljóni. Meyjarpakkinn í stjörnukorti Hönnu Birnu er með Tungl (tilfinningar), Úranus (óvænt, sjálfstæði) og Plútó (völd og dýpstu kenndir) í andstöðu við Satúrnus í Fiskum. Þar er stöðugt reiptog og ögrun við eldri karlmann, föðurímynd, þar sem Vilhjálmur og Ólafur F. koma t.d. í hugann nýverið. Merkúr og Neptúnus eru í Sporðdreka, þar sem samskiptum, rökhugsun og tjáningu er beitt á markvissan hátt til þess að mynda sterka ímynd, sérstaklega í sjónvarpi.
Hanna Birna hefur drauma og markmið sem falla vel að valdatoginu. Mars á leið inn í Meyju bætir við skilvirkni og þjónustulund, þó að stolt og valdapot sé ríkjandi. Sólin eða sjálfið nær sjaldnast að koma fram, þar sem sú ljúfa og listræna hlið er ekki í sterkum afstöðum eða í sviðsljósinu, nema að fæðingartíminn sýni sólina t.d. á rísandi merkinu eða á miðhimni. Getur ekki einhver laumað fæðingartímanum í athugasemdir?
Þegar stjörnukorti stundarinnar er smellt utan um kort Hönnu Birnu, sést hvernig margfaldar Meyjar- samstöður 14/8/08 leggjast ofan á Meyjarsamstöður hennar og magna upp togstreituna. Líklega er þó rétt að miða upphaf þessarar borgarstjórnar við 21/8/2008, sem verður þá kannski kl. 14:00 þann dag. Sú stjórn er með lukkuþríhyrning (e. Grand trine) í eldmerkjum og er afar jarðbundin. Aðilar þeirrar stjórnar munu ekki slíta henni, heldur munu utanaðkomandi atburðir og þrýstingur reyna á hana strax í haust, sbr. framvindukort hennar.
Tilurð þessarar borgarstjórnar Reykjavíkur er nauðsynleg Satúrnusar- hreinsun sem þröngvaði því í gegn sem gera þurfti en var ekki tekið á í upphafi. Sú leið er átakamest, en þetta virðist vera lokapunktur. Hún mun þurfa að reyna ýmsar Herkúlesarþrautir í haust og vetur en hefur lukkuna, kraftinn og seigluna með sér. Við skoðum dóm kjósenda síðar, en þar getur vegið þungt að komandi kreppa verði talin þessari nýju stjórn að kenna, sem yrði varla rétt metið.
Þrísmellið á myndir til þess að ná þeim réttum.
Borgarstjóri mætir í Ráðhúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2007 | 23:56
Réttu stjörnurnar
Ef litið er á samkomulag flokkanna um ráðherrastóla sem fæðingu, þá fæddist DS stjórnin ekki fyrr en sólin var komin í Tvíbura: tvískipt eðli, samskipti, samvinna. Einnig Merkúr, þannig að viðskipti, tjáning, ferðalög og samskipti verða á fullu.
Mikill eldkraftur er í kortunum: Tungl/Satúrnus 19° í Ljóni, Júpíter og Plútó í Bogmanni og Mars í Hrúti. Framkvæmdagleði, en þó alltaf andstæð öfl í togstreitu. Venus er á góðum stað í miðju Krabbans, sem bendir til heimakærrar velferðarstjórnar og þetta jarmar vel við Úranus í Fiskum, með óvenjulegar umhyggjulausnir.
Engin pláneta er í jarðarmerkjunum (Nauti, Meyju og Steingeit) og veldur það verulegum áhyggjum, þar sem skortur á jarðtengingu lætur fjármál fara úr böndunum og hleypir engu raunsæi að.
Tungl/Satúrnus í Ljóni er í andstöðu við Neptúnus í húmanistamerkinu Vatnsbera, líklega þar sem raunsæisfólkið og ídealistarnir takast stöðugt á um málin, en Merkúr tengir samt vel með samskiptum.
Merkúr í Tvíbura tekst á við Júpíter (og Plútó) þar sem tjáskipti, athafnalöngun og ídealismi togast á og getur skort stefnufestu, sérstaklega þar sem þær mynda spennuþríhyrning við Úranus, þannig að óvæntar uppákomur og sprengingar í samskiptum verða tíðar.
Mars í Hrúti er djörf staða út af fyrir sig. Óhræddur við breytingar og prófar gjarnan allt nýtt, af því að það er nýtt, en þó er Mars lítt tengdur hér og því gæti framkvæmdaorkan dofnað þegar á reynir, t.d. í nefndum. Einhver spenna er á Mars og Plútó, sem bendir til augljósrar viðvarandi valdabaráttu. Yfirleitt mun reynast erfitt að fá afgerandi svör í hverju máli vegna ofangreindra staða, þar sem andstæðir pólar mætast.
Sólin er ekki nógu tengd, þannig að ríkisstjórnin hefur varla sitt eigið sjálf, heldur er hún samlögun andstæðra afla. Hver aðgerð á sér mótrök og myndar spennu. Þó helst þetta allt saman á floti, sem skýra má með lýsingunni á þeirri 19° í Ljóni sem Tungl/Satúrnus er í: ("The Sabian Symbols as an Oracle" eftir Lindu Hill, bls. 139). Veisla í húsbáti, sem hefur óljósa stefnu, er óraunverulegt og skammlíft gaman. Ævintýrafólk í veislu, lokað inni á báti án áætlunarstaðar, án hafnar eða akkeris. Það kemur þó að því að halda þurfi til hafnar. Einnig er þetta útskýrt í bókinni "Degrees of the Zodiac" eftir Esther V. Leinbach, bls 84: Sá, sem hefur þessa stöðu á erfitt líf, en stenst eldraunina, af því að það er engin önnur leið nema í gegn um eldinn. Þetta er örlagatengt líf.
Niðurstaðan er sú, að líflegir eldhugar fara mikinn í samskiptum, umræðum og framkvæmdum, en togstreita og skortur á jarðtengdu sjálfi verður Akkilesarhæll þessarar ríkisstjórnar.
Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.5.2007 kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.5.2007 | 11:25
Geir með stjörnukraftinn
Þegar stjörnuspekin sýnir tvísýn úrslit, þá er afar erfitt að meta hvernig þetta fer, eins og með myndun næstu ríkisstjórnar. Nú er Geir H. Haarde með lukkustafinn í hendi, Júpíter myndar þríhyrning við sólina hans og Plútó hans, tunglið er beint á sólinni hans í dag og gefur dýpt í þetta, Mars er á Júpíternum hans osfrv. þannig að ekki vantar kraftinn. En Satúrnus á Plútó Geirs hlýtur að hafa látið hann meta ástandið upp á nýtt, af því að ef flórinn er ekki mokaður á þeim tíma, þá er fljótlega ekki vært í fjósinu.
Ingibjörg Sólrún er áfram sterk og verður með óvænta innkomu síðar í maí (sterkast um 25. maí) þegar Úranus snertir Tungl/Marsinn hennar. Það er óvænt sveifla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2007 | 15:41
Stjörnurnar kosnar
Stjörnuspekin veitir innsýn inn í það hvernig kosningadagurinn kemur út fyrir hvern leiðtoganna fyrir sig. Hér til hliðar eru stjörnukort kosninganna og nokkurra flokksforingjanna. Niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin falli, en Geir og Ingibjörg Sólrún myndi ríkisstjórn, líklega í byrjun júní.
Spágildið minna
Þetta var næstum því tilbúið fyrir tveimur mánuðum, en komst ekki á vefinn fyrr en núna, þannig að spágildið er öllu minna en það var þá, en samt læt ég það flakka. Þetta er fyrsta færsla þessa nýja bloggs, þar sem steinum er velt við, fordómalítið. Fiskurinn flíkar ekki stjórnmálaskoðun sinni. Tíminn til nákvæmra færslna er naumur núna þannig að tekstinn er takmarkaður í þetta skiptið. Athugasemdum í spurnarformi, sérstaklega frá áhugafólki um stjörnuspeki, verður svarað eins og kostur er.
Geir H. Haarde
Eins og skoðanakannanirnar sýna, þá er verulega mjótt á mununum. Forsætisráðherra er að upplifa einn spenntasta dag lífs síns, þar sem saman fer innri endurskoðun og hreinsun við álitsauka og óvæntar sveiflur. Það sem virkar ekki lengur, dettur út og síðan reynir á, þar sem unnið er úr óvenjulegri stöðu. Krafturinn er að hluta með honum, en Satúrnus skikkar hann til, þannig að valdabarátta er mjög líkleg út maí og raunar í allt sumar. Ef vinstri stjórn tekur við (vegna Satúrnusar / Plútós endurmats), þá kemur Geir samt persónulega sterkur út úr þessu, því að meðbyrinn er mikill. Líklegast semur hann þó, þar sem Júpíter hampar honum eftir kosningar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
"Sigurvegarinn" í þetta skiptið er án efa Ingibjörg Sólrún, amk verður þetta líklega verulegur persónulegur sigur hennar, þar sem hún rís úr öskustónni á einum mánuði í það að ná verulegu fylgi. Um leið og tunglið fór í Fiskana brosti hún sínu breiðasta, enda er Tungl/Úranus ("óvænt") samstaða við upphaf kosninga í morgun nákvæmlega á Tungl/Marsinum hennar, 19° í Fiskum, sem virkjar tvöfalda "Grand Trine" lukkuþríhyrninginn sem hún fæddist með. Vissulega er valdabarátta og spenna framundan, en allar líkur eru á því að hún verði í næstu ríkisstjórn ef þetta er rétt skilið. Hún fær þó altént ærlega uppreisn æru sem leiðtogi miðað við umræðuna í apríl síðastliðinn.
Steingrímur J. Sigfússon (fæðingartími ekki þekktur)
Steingrímur er magnað, sexfalt Ljón. Rökfastari manneskja finnst varla, eða sem kemur betur fyrir sig orði. Eldurinn brennur á fullu. Augljóslega hefur hann átt upp á pallborðið hjá kjósendum nýlega, þar sem byltingarsinninn nær tilfinningum fjöldans, þótt það hafi orðið erfiðara þegar sólin fór í jarðbundið Nautið. Satúrnus er líklega að taka hann í gegn, amk seinna í sumar. Ofur- samstöður Steingríms eru styrkur fyrir hann ef hann fær að ráða, en geta þýtt þrjósku, jafnvel óbilgirni í samningum um ríkisstjórn. Tunglstaðan virðist fyrst jákvæð (fall ríkisstjórnar), en niðurstaðan er varla sigur Steingríms eftir breytta tunglstöðu og nær Satúrnus/Plútó hreinsun. Steingrímur er sterkur í andstöðu, en á erfitt með að slípa hornin niður í samstöðu.
Ómar Ragnarsson
Það er líflegt en erfitt að vera Ómar. Leikmaður sér samstöðurnar og andstöðurnar í stjörnukorti hans, sem magnast upp í dag, kjördag. Það er spenna, hvert sem litið er. Augljóst er að hann leggur allt undir í þetta skiptið. Ómar er ofur- Meyja (og Naut), sexfaldur í jarðarmerkjum, en tilfinningaleg andstaða Fisksins í augnablikinu efast um að þetta gangi upp hjá honum. Hinar Meyjurnar með honum, Margrét og Jakob, ýta undi þessa andstöðu enn frekar. Ómar kemur þó sjálfur vel út úr þessu, með óvænta upphefð efir nokkra daga.
Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki kortin þeirra Jóns og Guðjóns tilbúin vegna tímaskorts (í alvöru, ekki pólítískt!). Miðað við gengið á Ingibjörgu Sólrúnu og Geir gæti það ekki skipt máli.
Frumniðurstöður
Mestar líkur eru á því að ríkisstjórnin falli, en að Sjálfstæðisflokkurinn nái að mynda stjórn með Samfylkingu eftir verulegt þref, líklega um 4-5. júní 2007. Þó á ég eftir að skoða það allt betur ef hún fellur, t.d. kort Íslands og hinna flokksformannanna. Látið í ykkur heyra, sem faglegast, takk, á meðan ég býst við að þurfa að éta hattinn minn.
Athugið að ýta þarf þrisvar á hverja mynd til þess að fá hana skýra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hin hliðin
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar